Gler

17.11.2014

Það er allur gangur á því hvort að glervörur megi fara í uppþvottavél eða hvort nauðsynlegt þykir að handþvo vöruna. Þumalputtareglurnar eru nokkrar. Glervörur sem eru gerðar úr misþykku gleri (t.d. Ultima Thule skálar) og þær sem hafa myndskreytt eða litað yfirborð (flest Ritzenhoff glös) skal handþvo. Með öllum glervörum á að fylgja þvottaleiðbeiningar. 

 

Ef varan er gefin upp fyrir þvott í uppþvottavél er gott að hafa í huga að gler þolir ekki eins háan hita og t.d. postulín. Þumalputtareglan þar er sú að þvo aldrei glervöru á hærri hita en 55°C.  Þetta er mikilvægt til þess að vera viss um að glervaran þoli endurtekinn þvott án þess að á henni sjái. 

 

Þegar þykkt á gleri er ekki jafn dreifð (á við t.d. um munnblásið gler) þá myndast mismunaspenna í glerinu við háann hita sem getur valdið því að glerið springur. Heillitaðar glervörur þar sem litarefnunum er blandað saman við glerið mega í flestum tilvikum fara í uppþvottavél (t.d. Kartio, Aino vatnsglösin og fleiri Iittala glervörur). Aðrar litaðar vörur geta verið litaðar með sérstakri húð eftir að glerið er storknað og þær verður því að handþvo annars mun liturinn fölna með tímanum. Það sama á við um glervörur með myndskreytingum á yfirborði. Það eru þó til á þessu undantekningar (t.d. Ritzenhoff Beer & More bjórglösin) þar sem sérstakri aðferð er beitt við myndskreytingu á yfirborði glasanna sem veldur því að þau þola að vera sett í uppþvottavél. 

 

Sólarljósið getur haft þau áhrif á húðað gler að litur þess fölni með tímanum (t.d. Rosendahl kertastjakar) og því er mælt með því að geyma þær vörur ekki í gluggakistum. Þetta á eimmitt ekki við um lituðu kertastjakana frá Iittala þar sem þeir eru úr heillituðu gleri. 

 

Varast skal í öllum tilvikum að setja heitt vatn í glerskálar. Við það myndast mikið ójafnvægi á ytra hitastigi og innan með skálinni og því mjög líklegt að glerið bregðist þannig við að það springur. Það sama gerist ef að kerti fá að brenna alveg niður í gler kertastjaka sem bera há kerti (t.d. gömlu Festivo kertastjakarnir). Þetta er t.d. ástæðan fyrir því að Iittala breytti framleiðslu sinni á þessum vinsælu kertastjökum. Nú eru þeir aðeins fáanlegir með stál ''skál'' á toppnum sem kertið er geymt í. Stálið ver glerið fyrir snöggum hitamismun og varnar því að glerið springur. 

 

Til er sérstakt hert gler sem er hitaþolið og því hugsað sérstaklega til þess að drekka heita kaffidrykki úr (t.d. teglösin frá Rosendahl og Ritzenhoff). Önnur glerglös eru hugsuð undir kalda drykki.