18/10 stál

20.11.2014

Flest öll hnífapör eru gerð úr sérstöku ryðfríu stáli. Stál er efnasamband úr járni og kolefni sem oxast auðveldlega í andrúmsloftinu og vatni sem veldur rauðum lit. Þessi rauði litur er það sem við flest þekkjum sem ryð. Til að gera stál ryðfrítt þarf að blanda öðrum efnum saman við stálið. Margir kannast við að sjá 18/10 stál en það vísar til þess að stálið inniheldur 18% króm og 10% nikkel. 

 

18/10 stál er því að sjálfsögðu ryðfrítt í hæsta gæðaflokki. 

 

Í næsta gæðaflokki fyrir neðan 18/10 stál er 18/8 stál en eins og reglan segjir til um þá er 18% króm og 8% nikkel blandað saman við stálið til þess að veita mótspyrnu gegn ryði. Oft er aðeins sagt til um að stálið sé ryðfrítt en það þýðir í flestum tilfellum að nikkel, króm eða mangan sé hluti af stál-blöndunni. Stundum reynist þó erfitt að fá upplýsingar um í hvaða hlutföllum blandan er.

 

Þó að varan sé úr hágæða ryðfríu stáli þá er í raun ekki til neitt stál sem er algjörlega ryðfrítt í öllum aðstæðum. Þess vegna getur verið gagnlegt að hafa nokkra hluti í huga. Til að byrja með þá fer ekki vel með stál að liggja í heitu baði of lengi eða vera inn í uppþvottavél lengi eftir að þvotti hefur verið lokið. Heitt vatn (eða heitar vatnsgufur) geta unnið á stálinu og valdið ryði. Varast skal einnig að raða hnífapörum of þétt í uppþvottavélina. Þar getur stálið rispast. Rispur eru í rauninni veikleikar á yfirborði stálsins sem gerir það veikara fyrir ryðmyndun. 

 

Jafnvel þótt að ryðfrítt stál sé mjög sterkt þá geta sumar tegundir matvara ( t.d. edik, mayonese, sinnep, rabbabari, salt) unnið á stálinu og skilið eftir sig bletti eða jafnvel ryð. Til þess að varna því að þetta gerist er mikilvægt að skola matvöruna fljótlega af hnífapörunum. 

 

Eftir langan tíma og mikla notkun getur farið að sjást á öllum hnífapörun, jafnvel þótt þau séu gerð úr 18/10 ryðfríu stáli. Til eru nokkur húsráð til þess að fá hnífapörin til þess að líta aftur út eins og ný. Við mælum með því að sjóða 1L af vatni í potti og bæta við það 1dl af þvottaefni og sjóða svo hnífapörin í blöndunni í 15 mínútur, og þurrka vel og vandlega. Ef það eru blettir á stálinu sem vilja engan veginn fara þá er mælt með að sjóða hnífapörin í 15 mínútur upp úr blöndu af vatni og ediki (1L : 1dl).