Postulín

20.11.2014

Postulín var þróað í Kína fyrir um 2000 árum og er sérstaklega sterkt efni sem búið er til úr leir (kaolín) sem búið er að hita upp við mjög háan hita. Postulín þolir að vera sett í uppþvottavél og í örbylgjuofn. Til eru þó matarstell úr postulíni sem þola hvorugt en þá er yfirleitt búið að lita yfirborð postulínsins með málmlitum. Postulín getur einnig verið ofnfast og frosthelt.

 

Varast skal þó alltaf snöggan hitamismun, t.d. að taka ofnfast postulín beint úr ofni og setja í frysti eða að setja frosinn mat í postulínsskál og setja í örbylgjuofn. Einnig er ekki mælt með því að setja frostþolna postulínsskál með vökva í í frysti. Rúmmálsaukning vökvans við frystingu mun valda því að skálin brotnar. 

 

Til eru margar mismunandi tegundir postulíns og fer tegundin oft eftir því hvar í heiminum það er framleitt. Nokkuð þekkt tegund í Evrópu er Bone China sem er postulín ættað frá Englandi en í það er búið að blanda dýrabeinsafurðum eins og nafnið gefur til kynna. Bone China er mjög sterkt og þekkist yfirleitt á mjög hvítum lit. Danska fyrirtækið Rosendahl framleiddi Grand Cru matarstellið úr Bone China postulíni hér á árum áður en hefur nú skipt yfir í hefðbundið postulín. 

 

Finnska fyrirtækið Iittala notast við postulín sem er sérstaklega hert og því ofnfast og frosthelt. Þetta á einnig við um flest allt postulín frá þýska gæðafyrirtækinu Rosenthal. 

 

Vert skal að hafa í huga að 18/10 stál hnífapör fara best með postulínsmatarstellum vegna sérstakra eiginleika stálsins sem valda síður rispum.