Askur

26.01.2017

Askur er náttúrulega frekar ljós viður. Askurinn vex víða, í Noregi, suðaustur Asíu og í Norður Ameríku og hefur þess vegna verið mikið notaður í allskyns húsgagnaframleiðslu. Mælt er með því að nálgast allar upplýsingar um frumvinnslu t.d. hvort hann er olíuborinn eða lakkaður svo hægt sé að meðhöndla askinn á réttan máta. Einnig getur skipt miklu máli hvort að húsgagnið sé úr gegnheilum við eða ekki. 

 

Við meðhöndlun á gegnheilum viði eru ákveðin atriði sem skipta höfuðmáli. Fyrir það fyrsta þá mun viðurinn alltaf breyta aðeins um lit með tíma ef á hann skín sól daglega. Varast skal sérstaklega að hafa viðarhúsgögn nálægt hitagjafa eins og ofni eða arni. Hitinn getur valdið ofþurrkun á viðnum og í verstu tilfellum sprungum. Gegnheill viður þarf að anda og því er ekki mælt með því að hafa á honum plastdúk í meira en 24 klukkustundir í einu. Mikilvægt er að notast við sérstaka einangrandi platta undir allt heitt sem lagt er á viðinn. Ef vökvi hellist niður á við er mikilvægt að þurrka bleytuna strax. 

 

Varist að nota sterk hreinsiefni á viðarhúsgögn. Sum hreinsiefni sem almennt eru notuð á heimilum hafa olíu í sér sem getur valdið uppsafnaðri áferð á viðnum sem ekki er ákjósanleg. Einnig geta sum þessara efna eytt upp upprunalegri áferð viðsins. Til þess að koma í veg fyrir ryksöfnun á viðnum er gott að nota reglulega þurrann klút. Af og til er í lagi að nota milda sápu í örlítið rökum klút. 

 

Gegnheill viður getur verið meðhöndlaður á framleiðslustigi á mismunandi máta. Stundum er hann t.d. olíuborinn eða sápuþveginn. Mikilvægt er að nálgast upplýsingar um þessi atriði svo hægt sé að varðveita eiginleika viðarins.